Verkamannaflokkurinn undir stjórn Jeremy Corbyn væri ógn við þjóðaröryggi Bretlands, að mati George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands. Ástæðan er sú að Corbyn er mótfallinn því að endurnýja Trident, kjarnorkuáætlun Breta.
Osborne skrifar í the Sun í dag og segir að vanheilagt bandalag vinstrisinnaðra uppreisnarseggja í Verkamannaflokknum og skoskra þjóðernissinna myndi gera út um áratugasamstöðu um að Bretar eigi kjarnorkuvopn. Það yrði hörmulegt að hans mati.
Skoski þjóðarflokkurinn er líka mótfallinn Trident, en kjarnorkuvopnin sem Bretar eiga eru geymd í Skotlandi. Flokkurinn er með 56 af 59 þingsætum í Skotlandi, en þingmenn í Westminster þurfa að taka ákvörðun um framhald Trident á næsta ári. Skoski þjóðarflokkurinn hefur skuldbundið sig til að við halda hefðbundnum sjóher þar sem kjarnorkumiðstöðin er nú.
Corbyn er vinsælastur af þeim sem bjóða sig fram til formanns Verkamannaflokksins og mikið hefur verið rætt um að Íhaldsflokkurinn myndi gleðjast ef hann nær kjöri. En Osborne sagði að það ætti ekki að grínast með formannskjörið. „Þvert á móti held ég að við ættum að taka það mjög alvarlega.“
Osborne sagði einnig að ógnin af þessu væri ekki aðeins ógn við þjóðaröryggi heldur líka við efnahagsöryggi. „Við munum takast á við hættuleg rök þeirra og sigra þá,“ skrifar ráðherrann.
„Í heimi sem verður sífellt hættulegri yrði það hörmulegt fyrir Bretland að kasta á glæ grundvallaröryggisstefnunni sem heldur okkur frjálsum og öruggum.“