Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í ræðustól Alþingis í gær að hann vilji ekki leggja það á nokkurn mann að horfa á íslenskar fréttir tvisvar sinnum eða oftar. Ummælin lét ráðherra falla í fyrirspurnatíma Alþingis.
Í fyrirspurnatímanum beindi Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata, þremur fyrirspurnum til Illuga varðandi gagnasafn RÚV. Birgitta vildi vita hvernig varðveislu hljóð- og myndefnis RÚV væri háttað, hvernig ráðherra hyggist bregðast við því að hljóð- og myndbandasafn RÚV liggi undir skemmdum, og hvort ráðherra telji að hljóð- og myndefni RÚV eigi að vera aðgengilegt almenningi, og þá hvernig.
Illugi þakkaði Birgittu fyrir fyrirspurnina, og var sammála henni um að málið snúst ekki um fjárhagsstöðu RÚV eða hlutverk stofnunarinnar. Málið snúist öðru fremur um menningararfinn og aðgengi þjóðarinnar að honum. Ráðherra upplýsti að við gerð nýs þjónustusamnings við RÚV yrði fjallað um stafræna yfirfærslu á efni RÚV og hvernig það verði gert aðgengilegt almenningi. Þá sé í smíðum frumvarp sem taki á vanda útvarpsstöðva varðandi höfundavarið efni.
Helgi Hrafn Guðmundsson, þingmaður Pírata, tók þá til máls og gerði aðgengi að fréttum RÚV á netinu að umfjöllunarefni. Hann gagnrýndi að einungis væri tryggt aðgengi að fréttum og fréttaskýringum RÚV í nokkrar vikur, sem hann furðaði sig á. Þar væri ekki um höfundavarið efni að ræða og því ekkert því til fyrirstöðu að hafa fréttir RÚV aðgengilegar á netinu.
Birgitta Jónsdóttir tók í sama streng, og fannst sérstaklega bagalegt að fréttir RUV frá tímum efnahagshrunsins væru ekki aðgengilegar á netinu. Hún þekkti dæmi þess að hlekkir inn á fréttir úr hruninu, virkuðu ekki lengur í heimildaskrám ritgerða. Hún beindi þá þeirri fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að koma þessu í lag, enda um mikilvægar samtímaheimildir að ræða sem hafi mikið gildi fyrir þjóðina.
Illugi þakkaði á ný fyrir umræðuna, og sagði mikilvægt að huga að varðveislu á því fjölbreytta efni sem RÚV framleiðir og varðveitir. "Hvað varðar fréttirnar, þá get ég svo sem alveg tekið undir það, að ég veit ekki hvort það eru tæknilegar eða fjárhagslegar ástæður fyrir því að þær eru bara þennan ákveðna tíma (aðgengilegar), ekki það að maður vilji leggja það á nokkurn mann að horfa á íslenskar fréttir tvisvar sinnum eða oftar jafnvel, en það er þó þannig að það er nauðsynlegt kannski sögunnar vegna að gæta þess að þar sé aðgengi sem lengst."
Varðandi fréttir úr hruninu sagði Illugi: "Ég vil líka fullyrða það við háttvirtan þingmann, að það er ekkert samsæri á bakvið það að þessar fréttir hafi horfið." Þá kallaði þingmaður úr salnum: "Viðurkenndu það!", og uppskar hlátur viðstaddra. Illugi hélt þá áfram: "Sumir halda því fram að þessar fréttir komi verr út fyrir suma en aðra, en ég held að þarna sé auðvitað frekar þá eitthvað tæknilegt mál sem skýri það."
Hægt er að sjá ummæli mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi hér.