Fulltrúar 45 samtaka sendu frá sér sameiginlega ályktun í dag vegna ástandsins á Landspítalanum, þar sem lækkun til reksturs spítalans, sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015, er harðlega mótmælt. Ályktunin verður send á ríkisstjórn Íslands í dag.
"Við höfum þungar áhyggjur af þróun mála á Landspítalanum," segir Fríða Björk Arnardóttir formaður Neistans - styrktarfélags hjartveikra barna í samtali við Kjarnann, en samtökin voru á meðal þeirra sem stóðu að fyrrgreindri ályktun.
Verður að endurskoða fjárveitingar til Landspítalans
"Við viljum að Landspítalinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru almennt til sjúkrahúsa á Norðurlöndunum og að spítalanum verði gert kleift að þróast. Við óskum þess innilega að ríkisstjórninn endurskoði forgangsröðun sína á því hvert peningarnir í landinu eiga að fara. Það verður að endurskoða þessa lækkun á fjárframframlögum til Landspítalans, og stjórnvöld verða bara að forgangsraða upp á nýtt," segir Fríða Björk.
Hún segir aðstandendur hjartveikra barna hafa þungar áhyggjur af framtíðinni. "Við höfum áhyggjur af því að við séum að missa læknanna okkar úr landi og það munu ekki að koma inn nýir hjartalæknar í staðinn. Við erum með mjög góða lækna í dag, en innan þeirra raða verður auðvitað að eiga sér stað endurnýjun. Börnin okkar, eins og staðan er í dag, þurfa mikið að sækja aðgerðir erlendis, til Lundar eða Boston, sem hefur reynst vel, en sú staða gæti komið upp að öll börnin þurfi að sækja sér þjónustu erlendis, og er það sparnaður fyrir ríkið?"
Samfélagið hefur lokað augunum fyrir stöðu Landspítalans
Fríða segir samfélagið hafa lokað augunum fyrir alvarlegri stöðu Landspítalans. "En nú er bara komið nóg. Hvað er hægt að spara mikið án þess að það komi niður á þjóðfélaginu okkar? Þetta ástand hefur ekki bara áhrif á sjúklingana okkar, heldur er það líka byrjað að hafa heilsuspillandi áhrif á heilbrigðisstarfsfólkið okkar sem vinnur á Landspítalanum. Við þurfum auðvitað að halda þeim hraustum líka svo það geti sinnt sínu starfi."
Fríða segir að óbreyttu muni ástandið fara að bitna verulega á skjólstæðingum Neistans. "Það mun gera það, þetta er á þeirri leið að þetta mun hafa áhrif á börnin okkar, og við sjáum ástandið því miður bara vera að stefna í þá átt."