Össur hagnaðist um 59 milljónir Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um sjö milljörðum króna. Þetta er um 45 prósent aukning frá árinu 2013. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Össuri til kauphallar. Hagnaðurinn nemur um 12 prósent af sölutekjum félagsins, samanborið við um 9 prósent af sölutekjum árið 2013. Undirliggjandi rekstur styrkist því umtalsvert milli ára, og flestar tölur í uppgjörinu benda til þess að árið 2014 hafi verið uppsveifluár hjá Össuri miðað við árið á undan.
Sölutekjur námu um 509 milljónum Bandaríkjadala, eða um 59 milljörðum króna, og jókst salan um átján prósent milli ára. EBITDA (rekstrahagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) nam um 104 milljónum Bandaríkjadala, eða um tólf milljörðum króna. Þetta nemur um 20 prósent af sölutekjum, en árið 2013 var EBITDA um átján prósent af sölu.
Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og er alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks, eins og segir á vef félagsins. Hjá fyrirtækinu starfa um 2.300 starfsmenn í átján löndum.