„Ef ríkisstjórnin segir að skattur upp á 862 milljarða haldi fyrir dómstólum, en er svo reiðubúin að gefa ríflega 400 milljarða afslátt frá honum þá þarf hún að skýra fyrir þinginu, þjóðinni, forseta Íslands ef því er að skipta – örugglega Indefence – hver ávinningurinn er af þeirri eftirgjöf.“ Þetta segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann fjallar um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stöðugleikaskatt og möguleg samkomulög kröfuhafa föllnu bankanna um að greiða stöðugleikaframlög í stað hans. Um sé að ræða fimm sinnum hærri „leiðréttingu“ en íslenskir húsnæðisskuldarar fengu samkvæmt Leiðréttingunni, áætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda.
Samkvæmt frumvörpum um stöðugleikaskatt myndi hann færa ríkissjóði 862 milljarða króna en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt að „hjáleiðin“ sem felst í að mæta stöðugleikaskilyrðunum muni færa honum 450 milljarða króna.
Kröfuhafar fá 400 milljarða afslátt…!Ég tætti mig nokkuð rækilega gegnum frumvörp Sigmundar Davíðs og co. um „stöð...Posted by Össur Skarphéðinsson on Sunday, June 28, 2015
Auglýsing
Össur segir tvær mögulegar skýringar á þessari eftirgjöf. Önnur sé sú að ríkisstjórnin hafi samið af sér. Hin sé sú að það sé 400 milljarða króna virði „að halda frið við kröfuhafa, sleppa við möguleg dómsmál, eiga kost á meiri erlendum fjárfestingum og taka ekki áhættu með orðspor Íslands. En varla ætlar Alþingi að afgreiða 400 milljarða eftirgjöf frá fullum stöðugleikaskatti án þess að á vegum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs sé lagt fram blákalt mat á því hver ávinningur Íslands er af 400 milljarða afslætti? Það mat vantar ennþá.“
Össur segir að lokum: „Það er svo tragíkómísk íronía af kaldhæðnustu sort að það skuli vera undir forystu Sigmundar Davíðs sem ríkisstjórn leggur til að Alþingi gefi kröfuhöfum kost á stærsta skattaafslætti í Íslandssögunni. Önnur íronía, engu minni, er að afslátturinn til kröfuhafa er fimmföld sú upphæð sem notuð var til að leiðrétta húsnæðisskuldirnar. Undir forystu formanns Framsóknar koma kröfuhafar semsagt út með fimm sinnum hærri „leiðréttingu“ en íslenskir húsnæðisskuldarar.
Hver hefði trúað því í síðustu kosningabaráttu?“