Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi utanríkisráðherra, skorar á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, á Fésbókarsíðu sinni að birta sálgreiningar sem erlendir vogunarsjóðir hafi látið gera hér á landi.
Formaður Framsóknarflokksins sagði í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna í gær: „Við vitum að fulltrúar kröfuhafanna hafa tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála. Og í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það.“
Össur skrifar í stöðuuppfærslu á Facebook: „Hjá Sigmundi Davíð kom fram í merkri ræðu hans á föstudaginn að kröfuhafar hefðu látið gera slíkar greiningar á íslenskum stjórnmálamönnum, og einhverjum blaðamönnum. Hið síðara sætir engum tíðindum þar sem vitað er að flestir blaðamenn eru líklega klikkaðir, miðað við launin sem þeir láta bjóða sér. Hitt er merkilegra ef búið er að brjóta Sigmund sjálfan og Bjarna til mergjar frá sálfræðilegu sjónarhorni – sem útaf fyrir sig hlýtur að teljast bæði þarft og tímabært. Sú skýrsla gæti orðið bókmenntaverk ársins, jafnvel best-seller ef kæmist á markað.“
Þá skorar Össur á forsætisráðherra að birta allar þær sálgreiningar sem hann kunni að hafa undir höndum sem fjalli um hann sjálfan eða aðra stjórnmálamenn á Íslandi. „Mér finnst ótækt að forystumenn ríkisins fái einir að sitja að slíkum bókmenntaperlum. Þjóðin verður að fá að njóta þeirra líka. Varla eru sálfræðilegar greiningar bestu sérfræðinga á leiðtogum íslenska ríkisins það slæmar að skaði hagsmuni ríkisins að birta þær.“
Stöðuuppfærslan sem Össur Skarphéðinsson birti á Facebook í dag.
Að endingu skrifar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar: „Varla mun úrskurðarnefnd um upplýsingamál standa gegn svo sakleysislegri beiðni. – Ég er strax farinn að hlakka til lestrarins – en geri ráð fyrir að fátt muni koma mér á óvart!“