Hlutabréfaverð í bandaríska tæknifyrirtækinu Apple hefur lækkað duglega í viðskiptum kauphöllinni í New York í dag. Verð hlutabréfa félagsins lækkuðu um 5 prósent við upphaf viðskipta. Verðfallið kemur í kjölfar árshlutauppgjörs sem kynnt var í gær af Tim Cook, forstjóra félagsins. Þrátt fyrir að tekjur og hagnaður félagsins hafi aukist verulega þá hafa fjárfestar tekið uppgjörinu illa.
Uppgjörið náði yfir þriðja ársfjórðung rekstrarárs Apple, það eru mánuðirnir þrír fram til 27. júní síðastliðinn. Í samanburði við sama tímabil í fyrra þá jókst hagnaður um 38 prósent og tekjur um 33 prósent. Alls nam hagnaðurinn 10,7 milljörðum dollara. Samtals seldust 47,5 milljónir eintaka af iPhone snjallsímum, eða 35 prósent meira á sama tíma í fyrra. Sala á Mac tölvum jókst um 9 prósent milli tímabilanna. Tim Cook, forstjóri Apple, sagði ársfjórðunginn sem leið hafa verið „ótrúlegan“.
Því virðast fjárfestar ósammála. Ástæður fyrir dræmum viðbrögðum og lækkandi hlutabréfaverði eru einkum taldar tvær. í fyrsta lagi bjuggust greiningaraðilar og fjárfestar við enn meiri vexti. Í öðru lagi er nú spurt hvort Apple geti viðhaldið þeim mikla vexti sem hefur einkennt félagið, en vöxturinn hefur á síðustu árum hefur verið drifinn áfram af auknu vöruúrvali og nýjum uppfærslum á eldri vörum.
Símarnir helsta tekjulindin - Engar upplýsingar um úrið
Í umfjöllun BBC um uppgjörið er greint frá áhyggjum sérfræðinga um að vöxtur sé of háður sölu iPhone snjallsíma og jafnframt er því velt upp hvort söluvöxtur símans geti haldið áfram á sama hraða og til þessa. iPhone er stærsti einstaki tekjupóstur Apple en sala á iPad hefur dregist saman að undanförnu og var 11 prósentum lægri en í fyrra. Á uppgjörsfundi reyndi Cook að slá á þessar áhyggjur og upplýsti að 73 prósent þeirra sem eiga iPhone 5s eða eldri gerð hafi enn ekki uppfært og fengið sér iPhone 6 síma. Því eigi iPhone 6 „mikið inni“.
Þá eru ekki allir á eitt sáttir um þá ákvörðun Apple að upplýsa ekki um sölu Apple úrsins, nýjustu vöru félagsins og þá fyrstu sem flokka má með tískuvörum. Apple segir það mikilvægt svo keppinautar fái ekki mikilvægar upplýsingar. Tekjur af sölu úrsins eru þess í stað flokkaðar undir „aðrar tekjur“ með aukahlutum og Beats-heyrnatólum. Vefmiðillinn Vox fjallar um þessa stefnu félagsins og segir afar erfitt að meta hverjar viðtökur við Apple úrinu hafi raunverulega verið, þar sem þau séu seld á svo stóru verðbili, allt frá 350 dollurum til 15 þúsund dollara. Blaðamenn Bloomberg áætla að um 1,9 milljónir úra hafi verið seld frá því þau komu á markað, en „aðrar tekjur“ jukust um 950 milljónir dollara á síðasta ársfjórðungi samanborið við fyrsta ársfjórðung rekstrarársins.