Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis formanns Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins 5. september næstkomandi. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu frá Óttari á Facebook.
Þar segist Óttar hafa óbilandi tröllatrú á erindi flokksins. "Það er þörf og eftirspurn eftir frjálslyndu, grænu og mannréttindasinnuðu stjórnmálaafli. Björt framtíð leggur áherslu á pólitíska siðbót og hefur staðfasta sýn á langtímahugsun og það að almannahagsmunir standi framar sérhagsmunum. Ég vil gera mitt í þessari baráttu."
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður bæjarstjórnar í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar, hafði áður tilkynnt að hún sæktist eftir því að vera í forystu flokksins, annað hvort sem formaður eða stjórnarformaður. Þrír aðrir hafa tilkynnt framboð til stjórnarformanns Bjartrar framtíðar. Þau eru frá Karólínu Helgu Símonardóttur, Matthíasi Frey Matthíassyni og Preben Péturssyni.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, hafi tilkynnt flokksmönnum að hann muni ekki leggja fram tillögu um róteringu á æðstu embættum flokksins á ársfundi hans sem fram fer 5. september næstkomandi. Það gerði hann með stöðuuppfærslu á lokuðu Facebook-svæði Bjartrar framtíðar fyrr í dag.
Guðmundur segir þar að rótering muni hvort eð er eiga sér stað í ljósi þess að hann muni hætta sem formaður, Róbert Marshall sem þingflokksformaður og Margrét Marteinsdóttir sem stjórnarformaður. Í stað tillögu um róteringu æðstu embætta ætlar Guðmundur að leggja til að stofnuð verði lagabreytingarnefnd og að tillaga hans um róteringu embætta verði sett inn í hana til umfjöllunar. Því bíði ákvörðun um að setja róteringu í lög flokksins þarnæsta ársfundar.