Liðsmenn hins svonefnda íslamska ríkis (Islamic state) eru að beita efnavopnum gegn fólki í Írak og Sýrlandi og óttast er að safn efnavopna sé að byggjast upp. Þetta segja bandarískir embættismenn og ráðgjafar stjórnvalda í Bandaríkjunum, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Staðfest hefur verið að efnavopnum í formi dufts hafi verið beitt gegn óbreytum borgurum, en staðfestar upplýsingar um hversu mikið af efnavopnum eru í umferð liggja ekki fyrir. Óttast er að sérstök deild á vegum íslamska ríkisins sé að búa efnavopnin til svo hægt að sé að beita þeim í meira mæli.
Í ítarlegri umfjöllun BBC, þar sem blaðamaður ræddi við vitni, heilbrigðisstarfsfólk og þolendur efnavopnaárása íslamska ríkisins og stjórnarhersins í Sýrlandi, kemur fram að líklega sé verið að beita vopnum sem innihalda klórtengd efni, sem geta verið banvæn í miklu magni. Fólk hafi nú þegar dáið án þess að vera með sár sjáanleg á líkamanum, og börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir árásum.
Frá því að borgarastríð í Sýrlandi hófst árið 2011 hafa meira en 200 þúsund manns látið lífið, og milljónir manna hafa flúið heimili sín, ekki síst til Evrópu.
BBC News - US official: 'IS making and using chemical weapons in Iraq and Syria' http://t.co/mZSJUDqto9
— david sheridan (@dav_sherid) September 10, 2015