Lögregluyfirvöld í Japan óttast öldu ofbeldis, eftir að þúsundir glæpamanna sem áður tilheyrðu stærsta glæpagengi landsins stofnuðu ný glæpasamtök um liðna helgi. Leiðtogi nýju samtakanna er hinn 67 ára gamli Kunio Inoue en hann var áður hátt settur í glæpagenginu Yamaguchi-gumi.
Ný glæpasamtök, sem kallast Kobe Yamaguchi-gumi og kjósa að notast áfram við sama kennimerki og fyrr, telja um þrjú þúsund meðlimi. Það eru mun færri meðlimir en í Yamaguchi-gumi, samtökunum sem glæpamennirnir áður tilheyrðu, þar sem meðlimir eru um 23.400 talsins, eða tæplega helmingur allra einstaklinga sem tilheyra skipulögðum glæpasamtökum í Japan. Samkvæmt frétt The Guardian um málið þá er óhlýðni meðlima gagnvart Shinobu Tsukasa, æðsta stjórnanda Yamaguchi-gumi, ástæða klofnings innan þeirra raða.
Samkvæmt samantekt Forbes tímaritsins frá síðasta ári eru Yamaguchi-Gumi auðugustu glæpasamtök heims, en auður þeirra var þá metin á um 80 milljarða dollara. Til samanburðar er auður Sinaloa, stærsta fíkniefnahrings Mexíkó, metin á um 3 milljarða dollara.
Japanska gengið fagnar í ár hundrað ára afmæli sínu en þau voru stofnuð árið 1915 í borginni Kobe, höfuðvígi þeirra enn þann dag í dag. Þau hafa að mest einblínt á „hefðbundna“ starfsemi glæpagengja á borð við fíkniefnasmygl, okurlánastarfsemi og verndun þriðja aðila. Á undanförnum árum hafa samtökin þó fært út kvíarnar og stundað fjárglæpi og annars konar hvítflibbaglæpi.
Japanskir fjölmiðlar hafa fylgst grannt með gangi mála innan glæpasamtakanna. Lögreglan óttast að ofbeldi brjótist út milli gömlu og nýju samtakanna, sem geti bitnað á almennum borgurum. Svipað var uppi á teningnum árið 1984, þegar upp komu deilur innan samtakanna. Þá létust 25 manns hið minnsta á næstu þremur árum, um 70 slösuðust, þar á meðal nokkrir sem ekki tengdust skipulagðri glæpastarfsemi, og lögreglan handtók hundruð glæpamanna.