Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að meirihluti sé fyrir því á þingi að ráðast annars vegar í frekari virkjanagerð í samræmi við rammaáætlun og að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu segir hún að það gangi ekki lengur að ýta öllum ágreiningsmálum á undan sér vegna tregðu jaðarflokka í ríkisstjórninni til að gera málamiðlanir. Hún leggur því til að annar flokkurinn, Vinstri græn, gefi eftir í andstöðu sinni gagnvart virkjunum gegn því að hinn, Sjálfstæðisflokkurinn, gefi eftir varðstöðu sína fyrir óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Fyrir báðum málunum sé ótvíræður meirihluti á Alþingi.
Formaður Viðreisnar segir að það sé komið Sjálfstæðisflokknum að láta af andstöðu við allar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í staðinn fyrir framgang í orkumálum. „Það er ríflegur þingmeirihluti fyrir tímabindingu veiðiréttarins, eðlilegu gjaldi fyrir einkarétt og nýjum reglum til þess að auka gegnsæi, hindra of mikla samþjöppun og tryggja dreifðari eignaraðild. Það má líka ætla drjúgan stuðning á þingi við markaðsgjald fyrir veiðiheimildir en hátt í 90 prósent þjóðarinnar styðja þá leið. Ákvarðanir um þessar mikilvægu breytingar er unnt að taka á vorþinginu samhliða ákvörðunum um nauðsynlega orkuöflun. [...] Málamiðlun af þessu tagi er eina leiðin fyrir nýjan sjávarútvegsráðherra til að komast hjá því að skila sjávarútvegsráðuneytinu í sömu sporum og hún tók við því.“