Allt frá því í október í fyrra hefur meirihluti útlána til heimila frá bönkum og lífeyrissjóðum hérlendis verið óverðtryggður, en hlutdeild þeirra hefur hækkað töluvert á síðustu mánuðum. Samkvæmt húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur aukin hlutdeild banka í útlánum, ásamt uppgreiðslum á verðtryggðum útlánum lífeyrissjóða, leitt þessa hækkun.
Eftirspurn eftir óverðtryggðum lánum jókst á árunum eftir fjármálakreppuna, á meðan vextir þeirra voru nokkuð lægri en vextir verðtryggðra lána, að viðbættri verðbólgu. Frá janúar 2010 til lok árs 2013 fór hlutfall óverðtryggðra lána úr fjórum prósentum upp í 27 prósent, en á sama tíma voru lánakjör þeira nokkuð betri en vaxta verðtryggðra lána, að viðbættri verðbólgu.
Frá seinni hluta ársins 2013 til byrjun árs 2019 hélst svo hlutfall óverðtryggðra lána tiltölulega stöðugt í 27 til 31 prósent, þ.e.a.s. fjórða til þriðja hvert lán var óverðtryggt. Á þessu tímabili var minni munur á almennum vöxtum óverðtryggðra lána og vöxtum verðtryggðra lána plús verðbólgu, líkt og sjá má á mynd hér að ofan, en lengst af voru vextir á óverðtryggðum lánum hærri.
Vaxtalækkanir og verðbólga
Í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans, sem hófust árið 2019, fóru almennir vextir á báðum tegundum lána að lækka. Hins vegar versnuðu lánakjör verðtryggðra lána eftir því sem verðbólgan tók að aukast á síðasta ári, á meðan vextir á óverðtryggðum lánum héldust lágir.
Því hafa fleiri tekið óverðtryggð lán heldur en verðtryggð á síðustu árum, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Frá miðju ári 2019 til janúarmánaðar á þessu ári hefur hlutdeild óverðtryggðra lána á meðal banka hækkað úr 33 prósentum upp í 55 prósent.
Meiri lán hjá bönkunum
Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS er vikið að þessari þróun, en samkvæmt stofnuninni er ekki að undra að hlutfallið hafi hækkað svona mikið á síðustu mánuðum. Bankarnir hafi verið umsvifamestir á lánamarkaði síðasta árið, á meðan mikið hafi verið um uppgreiðslur hjá lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði. Kjör bankanna á óverðtryggðum lánum hafi verið mun hagstæðari og því hafi lántakendur í auknum mæli leitað til þeirra.