Óvíst er hvort Sigmar Guðmundsson, ritstjóri fréttaskýringa- og þjóðmálsþáttarins Kastljós, snúi aftur til fyrri starfa á RÚV. Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, segir í samtali við Séð og Heyrt að staðan verði metin þegar Sigmar komi úr meðferð. Í maí greindi Sigmar opinberlega frá baráttu sinni við alkóhólisma og að hann hefji meðferð á Vogi.
„Framtíð Sigmars í Kastljósinu er ekki bara undir okkur komin. Vel getur verið að hann vilji fara að gera eitthvað allt annað,“ segir Rakel í samtali við blaðið og ítrekar að ekkert hafi verið ákveðið í þessum efnum.
Þóra Arnórsdóttir hefur gegnt starfi ritstjóra Kastljóss í fjarveru Sigmars. Þóra hefur starfað við dagskrárgerð og fréttamennsku árum saman, og lengst af í Kastljósinu, síðast sem aðstoðarritstjóri. Hún snéri aftur í Kastljósið haustið 2013 eftir að hafa fengið leyfi frá störfum til að bjóða sig fram til forseta árið 2012 og fæðingarorlof. Þóra dvaldi hluta af síðasta vetri við í bandaríska háskólanum Yale. Þar tók hún þátt í námskeiði sem nefndist „Yale World Fellows“.