Ef frumvarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra nær fram að ganga verður samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna lögð niður. Í staðinn fyrir nefndina stendur til að forsætisráðuneytið sjálft gefi stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna, og þá bara þegar eftir því verður leitað. Siðanefndina skipuðu sjö einstaklingar, en Sigmundur Davíð hefur ekki skipað nýja fulltrúa í nefndina eftir að síðasta skipun rann út haustið 2013, þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi hvatt til þess í desember að nýir fulltrúar yrðu skipaðir í samræmi við ákvæði laga.
Frumvarp forsætisráðherra er um margt merkilegt, ekki síst fyrir þær sakir að blekið er vart þornað á ábendingum sem umboðsmaður Alþingis sendi forsætisráðuneytinu varðandi framkvæmd og grundvöll siðareglna fyrir ráðherra, samhliða áliti embættisins á framgöngu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi innanríkisráðherra í lekamálinu svokallaða. Pæling Kjarnans er þessi; Af hverju er ekki hægt að læra af reynslunni og fara að ráðleggingum umboðsmanns Alþingis, sem flestir eru sammála um að hafi staðið sig óaðfinnanlega í lekamálinu, og skerpa enn frekar á siðareglum í stjórnsýslunni?