Nú er svo komið að flest störf sem verða til á Íslandi eru í ferðamannaiðnaðinum og hann er orðinn stærsti atvinnuvegurinn og sá mest gjaldeyrisskapandi hér á landi. Í nokkur ár hefur verið ljóst að í þetta stefndi en enn hefur ekki tekist að hefja almennilega uppbyggingu á innviðunum. Ekkert útlit er fyrir að það takist á næstunni, enda stuðningur við náttúrupassa Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra mjög lítill. Flestir í geiranum virðast sammála um að mikil þörf sé á uppbyggingu á ferðamannastöðum en eru jafnframt á móti þeirri leið sem ráðherrann vill fara. Áfram verður því deilt um hvaða leið eigi að fara til að fjármagna innviði ferðaþjónustu og á meðan fjölgar þeim sem hingað koma og þurfa að nota þessa innviði.
Björt Ólafsdóttir þingkona velti upp athyglisverðum punkti á Alþingi í gær þegar hún benti á að ekki hefði staðið á ríkinu að borga og jafnvel ívilna stórum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi og stóriðju til að þeim farnaðist vel. Hún spurði meðal annars um það hversu margir milljarðar af skattfé skyldu hafa farið í hafnargerð og aðra uppbyggingu fyrir þessa geira í gegnum tíðina. Það má alveg taka undir þá spurningu Bjartar hvers vegna þetta gildi ekki um ferðaþjónustu? Hvers vegna voru sérstakir skattar á sjávarútveg og stóriðju aldrei inni í myndinni en það á að vera leiðin fyrir ferðaþjónustuna?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.