Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Þegar úrskurður Persónuverndar í máli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, var orðinn opinber fyrir helgi leið ekki á löngu þar til flestir fjölmiðlar reyndu að ná tali af Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Úr ráðuneytinu heyrðist það eitt á föstudaginn að Ólöf myndi ekki tjá sig fyrr en eftir helgi.
Í gær, mánudag, mætti Ólöf svo á þingfund á Alþingi þar sem hún sat fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þegar þingfundur hófst klukkan þrjú hafði einn fjölmiðill náð tali af Ólöfu, mbl.is. Það hefði mátt halda að einhver þingmaður hefði notað tækifærið í óundirbúnum fyrirspurnartíma til þess að spyrja Ólöfu út í Sigríði Björk og úrskurð Persónuverndar. Þingmennirnir veita jú ráðherrunum aðhald og óundirbúnar fyrirspurnir eru tilvaldar fyrir mál af þessu tagi, sem kannski komast ekki með beinum hætti inn í þingið öðruvísi.
Bréfritari hlustaði að minnsta kosti með athygli á óundirbúnar fyrirspurnir og beið þess að Ólöf yrði beðin um að svara spurningum um málið. En hver fyrirspurnin á fætur annarri kom til ráðherranna og tíminn leið án þess að nokkur þingmaður spyrði um málið. Hvernig í ósköpunum stendur á því?