Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Jæja, þá er það byrjað. Fyrsta Facebook-síðan þar sem skorað er á Ólaf Ragnar að bjóða sig aftur fram til forseta er komin í loftið. Ólafur Ragnar er nú á sínu fimmta kjörtímabili, og þegar því lýkur á næsta ári, hefur hann verið tuttugu ár í embætti. Stór hluti þjóðarinnar hefur aldrei haft annan forseta, og samkvæmt nýlegri blaðagrein sem birtist í Washington Post, er Ólafur Ragnar á meðal þeirra þjóðhöfðingja sem setið hafa hvað lengst á „valdastóli,“ Þar er forseti vor í flokki með þjóðarleiðtogum frá ríkjum Afríku og Asíu, en einu þjóðarleiðtogarnir frá Evrópu sem komast á listann eru Pútín og Lukashenko forseti Hvíta-Rússlands.
01Þegar Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram í fimmta sinn árið 2012, ýjaði hann að því að hann myndi mögulega ekki sitja út kjörtímabilið. Hann situr enn og hefur nú í hyggju að sitja út kjörtímabilið. Aðspurður í sjónvarpsviðtali á dögunum um hvort hann ætli að bjóða sig fram sjötta kjörtímabilið í röð, útilokaði forsetinn það ekki. Pælingin er þessi: Eftir hverju er Ólafur Ragnar að bíða? Er hann að bíða eftir að þrýst verði á hann að bjóða sig fram aftur? Eða er hann að bíða eftir að sjá hverjir hyggjast bjóða sig fram til embættisins? Ætlar hann kannski fyrst þá að ákveða sig hvort einhver frambjóðendanna sé verðugur arftaki hans? Eða er hann ef til vill að bíða eftir verðugum andstæðingi?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.