Dómur Hæstaréttar í Al-Thani málinu þykir um margt merkilegur, enda fátítt að rétturinn taki sig til og skrifi upp nýjan dóm sem er jafn afgerandi og þessi. Eitt sem er áberandi í dómnum er að Hæstiréttur túlkar tölvupósta sem fóru milli hinna seku og annarra sem komu að gjörningunum sem framkvæmdir voru, og notar þá sem rökstuðning fyrir sekt mannanna.
Þetta hefur vakið athygli, enda í andstöðu við niðurstöðu héraðsdóms í að minnsta kosti einu máli, Aurum málinu. Sakborningarnir í því þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var einn aðaleigandi bankans, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis banka, voru sýknaðir í málinu í fyrrasumar. Niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar.
Í niðurstöðu héraðdóms í því máli sagði meðal annars: „Þótt sönnunarmatið sé frjálst er sú leið ótæk að mati dómsins að byggja sönnun í málinu á túlkun á tölvupóstunum sem eru, a.m.k. að hluta, andstæðir framburði ákærðu og/eða vitna fyrir dómi. Önnur niðurstaða væri að mati dómsins andstæð grundvallarreglum um sönnun í sakamálum“.
Það verður áhugavert að sjá hvað Hæstiréttur segir um þessa niðurstöðu í ljósi þess sem fram kemur í Al-Thani dómnum.