Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Úrslitaleikurinn á HM í handbolta fer fram á sunnudaginn, þegar heimamenn í Katar taka á móti Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakka. Katarar, sem tefla fram liði sem er skipað „aðkeyptum“ leikmönnum að hluta, eru fyrsta þjóðin utan Evrópu til að komast í úrslitaleik á heimsmeistaramóti. Dómgæslan á mótinu hefur verið harðlega gagnrýnd. Viggó Sigurðsson fullyrti í HM-stofunni á RÚV í gærkvöldi að dómarapörin á mótinu væru ekki einu sinni á meðal tíu bestu dómarapara í heiminum.
Katarar slógu út lið Austurríkis á leið sinni í úrslitaleikinn, en þjálfari Austurríkis er Patrekur Jóhannesson. Patrekur á hrós skilið fyrir að hafa haldið ró sinni í leiknum undir herfilegri dómgæslu þar sem klárlega hallaði á Austurríkismenn, en Patrekur neitaði að gagnrýna dómaraparið eftir leik en spáði því að Katar myndi fara langt í keppninni. Hann reyndist sannspár. Aftur reyndust dómarar heimsmeistaramótsins halda með Katar í undanúrslitaleiknum við Pólverja í gær. Svo arfaslök var dómgæslan að mati pólsku leikmannanna að þeir söfnuðust saman að leik loknum og klöppuðu fyrir dómurum leiksins.
Pæling Kjarnans er þessi: Í ljósi þess að Þýskaland var sjanghæjað inn á heimsmeistaramótið á mjög hæpnum forsendum, að í úrslitaleik mótsins sé komið lið sem er nær eingöngu skipað aðkeyptum leikmönnum og að greinilega sé dæmt gestgjöfunum í vil þannig að margir fullyrða að Katarar hafi nú þegar keypt sér heimsmeistaratitilinn, er þá í alvörunni hægt að kalla handbolta alvöru íþrótt?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.