Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá á dögunum, greiddi innanríkisráðuneytið rágjafarfyrirtækinu Argus tæpar 2,4 milljónir króna fyrir fjölmiðlaráðgjöf vegna Lekamálsins svokallaða á síðasta ári. Þá greiddi ráðuneytið lögmannsstofunni LEX tæpa milljón króna fyrir lögfræðiráðgjöf í tengslum við sama mál.
Þá greindi Kjarninn sömuleiðis frá því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi greitt almannatengslafyrirtækinu KOM hátt í 900 þúsund krónur vegna samantektar um búsáhaldabyltinguna og vegna Lekamálsins. Í frétt RÚV í gærkvöldi kom fram að beinn kostnaður embættisins vegna Lekamálsins hafi verið um 700 þúsund krónur, og restin hafi verið vegna ráðgjafar um hvernig skyldi bregðast við fjölmiðlaumfjöllun vegna samantektar Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, vegna mótmælanna á Austurvelli.
Í sömu frétt RÚV kom jafnframt fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi varið tæpum tveimur milljónum króna í ráðgjöf vegna kynningarmála á kvótafrumvarpinu og náttúrupassanum.
Pæling Kjarnans er þessi: Er það réttlætanlegt að kjörnir fulltrúar, það er ráðherrar, geti varið skattfé til að hafa áhrif á álit almennings á jafn umdeildum málum og raun ber vitni? Er eðlilegt að skattgreiðendur standi straum af kostnaði við að afla umdeildum málum einstakra ráðherra fylgis? Svo ekki sé talað um sakamál á borð við Lekamálið. Svo má spyrja hvort það sé hluti af starfslýsingu embættismanns á borð við lögreglustjóra að verja almannafé til að verjast réttmætri gagnrýni fjölmiðla á embættisfærslur hans? Og það í máli þar sem Persónuvernd mat sem svo að lög hafi verið brotin.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.