Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Svo virðist sem andstaðan við frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um náttúrupassann sé svo mikil að fá dæmi séu um viðlíka andstöðu við frumvarp ráðherra. Það eru næstum allir hagsmunaaðilar á móti hugmyndinni um náttúrupassa, meðal annars Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, auk fleiri samtaka. Þá er mikil óánægja með náttúrupassahugmyndina hjá stjórnarflokkunum báðum, og einnig hjá stjórnarandstöðunni!
Augljóst er að hugmyndin mun aldrei ná fram að ganga, eins og mál hafa þróast. En ráðherrann getur huggað sig við eitt. Erlendir ferðamenn streyma hingað til lands, og hefur fjölgað mikið frá því að byrjað var að vinna að frumvarpinu um náttúrupassann. Kannski felst sáttin um þetta eldfima mál bara einfaldlega í því að taka fé til þess að byggja upp innviði í ferðaþjónustu úr ríkissjóði, en skatttekjur af ferðaþjónustunni, ekki síst í gegnum veltiskatta sem tengjast þjónustu af ýmsu tagi, hafa aukist mikið að undanförnu.
Er þetta kannski lausnin eftir allt saman? Að taka ekki upp neina nýja sértæka gjaldtöku heldur einfaldlega nýta auknar skatttekjur af fjölgun ferðamanna?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.