Í pælingu dagsins í gær var vöngum velt yfir samskiptaleysi milli utanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins vegna TISA-samninganna svokölluðu. Ráðherrarnir Gunnar Bragi Sveinsson og Kristján Þór Júlíusson virðast allavega ekki ræða mikið saman ef 50 ríkja alþjóðasamningur, sem meðal annars fjallar um heilbrigðismál, hefur aldrei verið ræddur þeirra á milli. Nú bætist í þennan hóp ráðherra sem ekki virðast ræða sérlega mikið saman. Á föstudag kom fram í fréttum gagnrýni Sjálfstæðismanna á kvótafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Bjarni Benediktsson tók ekki undir þá gagnrýni og vildi ekki viðurkenna að miklar deilur væru um málið innan ríkisstjórnarinnar. Í gærkvöldi mætti hins vegar Sigurður Ingi í fréttir RÚV og gerði ekki mikið til að taka undir með Bjarna. Hann viðurkenndi að það væru mjög „ólík sjónarmið“ uppi um málið. Ráðherrarnir virðast því ekki ganga í takt í þessu stóra máli, eins og kannski var við að búast.
Sigurður Ingi segir líka að það komi ekki til greina að falla frá ákvæðinu um að ríkið eignist aflaheimildir - sem er það sem stendur í Sjálfstæðisflokknum. Undir þetta tók m.a. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra í gærkvöldi. Því virðist þeim fjölga málunum sem ekki er einhugur um í ríkisstjórninni. En Íslendingar eru svo sem orðnir vanir því að hafa ósamstígar ríkisstjórnir. Nú verður áhugavert að sjá hvenær og hvernig kvótafrumvarpið kemur frá ríkisstjórninni.