Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna virðist fylgi Framsóknarflokksins vera í frjálsu falli. Fylgi flokksins mælist nú 9,4 prósent, en flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu Alþingiskosningum sem fram fóru í apríl árið 2013. Fylgishrun flokksins er ekki síst merkilegt í ljósi skuldaniðurfellingarinnar, móður allra kosningaloforða, og hversu vel til tókst við útfærslu hennar að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Fylgi Framsóknarflokksins, samkvæmt áðurnefndri könnun MMR, er það minnsta síðan í apríl árið 2009, þegar MMR mældi flokkinn með níu prósenta fylgi. Flokkurinn er þó í töluvert betri stöðu en í desember árið 2008 þegar flokkurinn mældist með sannkallað bjórfylgi, eða 4,9 prósent. Skömmu síðar, eða þann 18. janúar 2009, var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.