Nú þegar ljóst er hvert framlag Íslendinga verður í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þá mun þjóðin flykkja sér á bakvið það lag. Og innst inni er þorri þjóðarinnar sannfærður um að þetta verði loksins árið sem við vinnum aðalkeppnina.
Því er stutt í að samkvæmisleikir um hvar Eurovision 2016 eigi að fara fram hefjist. Dugar Egilshöll, er Kórinn málið eða þarf að byggja eitthvað ferlíki til að hýsa glimmer-dýrðina? Og í kjölfarið takast aðdáendur ráðdeildar annars vegar og skemmtunar hins vegar á um hvort við eigum raunverulega peninga til að halda svona keppni.
Haukur Johnson, einnig þekktur sem Euro-Haukur, skrifaði lokaritgerð í hagfræði um hvort það væri þjoðhagslega hagkvæmt að halda Eurovision á Íslandi árið 2011. Hans niðurstaða var skýr: heldur betur! Í útdrætti úr ritgerðinni segir að „Samkvæmt niðurstöðum kostnaðarábatagreiningarinnar skilar verkefnið hagrænum ábata að upphæð 160.883.486 kr. Þar sem varlega var farið í mati á ábata er dregin sú ályktun að líklegra sé að hann sé vanmetinn en ofmetinn“.
Haukur studdist reyndar við kostnaðaruppgjör norska ríkissjónvarpsins NRK, sem hélt keppnina árið 2010, en Norðmenn eru auðvitað heimsþekktir fyrir að passa vel upp á peninganna sína. Ekki er víst að sama niðurstaða hefði fengist ef stuðst hefði verið við kostnaðaruppgjör Dana, sem héldu keppnina í fyrra. Sú keppni er nefnilega talin hafa kostað um 6,4 milljarða króna, sem er ævintýranleg bilun.
Því er pælingin þessi: ef við erum lík Norðmönnum þá getum við haldið Eurovision, en ef við erum líkari Dönum þá eigum við alls ekki að gera það.