Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Neyðarlán Seðlabanka Íslands upp á 500 milljónir evra til Kaupþings á síðustu metrunum fyrir fall bankans, er einn stærsti óupplýsti atburður bankahrunsins. Eins og Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá nemur tap skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar litlum 35 milljörðum króna.
Upptaka af víðfrægu símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, skömmu áður en þrautavaralánið var veitt hefur enn ekki komið fyrir eyru almennings, en margir telja að hún geti upplýst um aðdraganda lánveitingarinnar og svarað mörgum spurningum í leiðinni. Að upptakan hafi ekki enn verið gerð opinber hefur strandað á Geir sem hefur ekki viljað veita samþykki fyrir því.
Davíð Oddsson, núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði í Reykjavíkurbréf Moggans um helgina að Geir H. Haarde beri ábyrgð á því að neyðarlánið var veitt Kaupþingi. Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Jón Sigurðsson fyrrverandi seðlabankastjóri tóku reyndar af öll tvímæli um það í kjölfarið og sögðu lánveitinguna hafa verið aðgerð Seðlabankans og ekki háða samþykki ráðherra.
Og þá hefur Björn Þorvaldsson, saksóknari í Al Thani málinu, sagt að „fölsk hughrif“ sem sýndarviðskiptin ollu, hafi átt þátt í því að Kaupþing fékk lánið.
Hér er pæling: Er ekki komið nóg af þessu bulli? Eiga ekki íslenskir skattgreiðendur fullan rétt á að fá vita endanlega hvernig staðið var að lánveitingu sem kostaði þá 35 milljarða króna? Ef til vill upplýsir símtalið á milli Geirs og Davíðs um hvor þeirra var undir „fölskum hughrifum,“ þegar endanlega var ákveðið með lánveitinguna. Davíð segir að Geir beri ábyrgðina, en hvað segir Geir við því? Boltinn er nefnilega hjá honum núna.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.