Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Bréfritari hefur fylgst nokkuð vel með umræðunni um hið svokallaða afnám fjármagnshafta. Allar hugmyndir sem komið hafa fram um hið svokallaða afnám, hafa alls ekki snúist um að afnema fjármagnshöft heldur miklu frekar að breyta fjármagnshöftunum, bæta við þau nýjum höftum eða festa þau rækilega í sessi. Ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar. Stýring á fjármagni lífeyrissjóðanna með því að setja hömlur á tilfærslur fjármagns þeirra úr landi (höft). Skattur á útflæði fjármagns (höft). Hámark á fjárfestingu einstaklinga (höft). Og svo framvegis. Bréfritari man ekki eftir því að nokkur maður sé að halda því fram, að til standi í reynd að afnema fjármagnshöft.
Kannski ættu við fjölmiðlamenn að fara nota önnur orð um þessi mál, en að afnema fjármagnshöft?
Leiðrétting: Í fréttabréfi dagsins misritaðist að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra væri formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er nú aldeilis ekki. Hið rétta er að sjálfsögðu að hann er formaður Framsóknarflokksins. Molinn úr fréttabréfinu er réttur hér að neðan. Beðist er velvirðingar á þessu.
Vill óháða rannsókn á morðinu á Nemtsov... Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins vill að sérstök óháð rannsóknarnefnd verði skipuð til þess að rannsaka morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov. Hann var myrtur á föstudaginn en Vladímir Pútín forseti Rússlands hefur sjálfur sagst ætla að stýra rannsókn málsins. Sigmundur Davíð var mikill aðdáandi Nemtsov og fylgdist grannt með baráttumálum hans.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.