Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Ferðaþjónusta fatlaðs fólks hefur verið mikið í fréttum eftir að Strætó tók við þjónustunni um áramót. Framkvæmd þjónustunnar hefur verið harðlega gagnrýnd, fólk sem þarf að nota þessa þjónustu hefur meðal annars lent í miklum seinkunum, lent í því að bílar komi ekki að sækja það eða þá að því sé neitað um þjónustu, af því að pantanir hafa týnst. Ýmislegt slæmt hefur sem sagt komið upp á, en ekkert hefur þó verið í líkingu við atburði gærdagsins og kvöldsins, þegar ung kona sem þarf að nota þjónustuna þurfti að komast í Hitt húsið.
Þangað skilaði hún sér aldrei og hún fannst ekki fyrr en um sjö klukkustundum seinna. Þá var hún enn inni í bíl ferðaþjónustunnar. Málið er hneyksli svo ekki sé fastar að orði kveðið. Strætó baðst réttilega afsökunar á málinu í gærkvöldi, en það er alveg ljóst að afsökunarbeiðni, hversu einlæg sem hún er, nægir ekki til. Það þarf að hreinsa verulega til í verklaginu hjá Strætó og allir sem að málinu koma, frá bílstjórum til borgar- og bæjarstjóra sem bera ábyrgð á Strætó, verða að axla ábyrgð. Kerfið verður að bæta strax fyrir atvikið í gær og ekki síst það virðingarleysi sem skjólstæðingum þessarar þjónustu hefur verið sýnt. Það þarf að tryggja að svona lagað eigi sér aldrei og geti aldrei átt sér stað aftur.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.