Í dag fer fram aðalfundur hjá Samtökum iðnaðarins, og beint í kjölfarið halda samtökin Iðnþing. Lítil spenna er fyrir formannskjörinu, enda býður sig enginn fram gegn formanninum Guðrúnu Hafsteinsdóttur hjá Kjörís. Hún fór fram gegn þáverandi formanni, Svönu Helen Björnsdóttur, forstjóra Stika, á síðasta aðalfundi samtakanna. Þá voru þær niðurstöður túlkaðar sem svo að breyta ætti áherslum samtakanna í Evrópumálum, en það virðist ekki hafa staðist. Í það minnsta hafa litlar eða engar áherslubreytingar orðið í þeim málum. Niðurstöðu kosningar til stjórnarinnar hefur hins vegar verið beðið, enda geta niðurstöður í stjórnarkjöri oft gefið til kynna hvert stefnan er tekin innan mismunandi greina iðnaðarins og oft keppast fulltrúar stórra greina iðnaðarins um sæti. Til dæmis býður sig nú fram Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, en margir telja að upplýsingafyrirtækin þurfi sterkari rödd hjá samtökunum. T.d. bauð forstjóri CCP, Hilmar Veigar Pétursson, sig tvisvar sinnum fram til stjórnarsetu hjá SI, en hlaut ekki brautargengi.
Þegar þetta er allt saman komið í ljós verður svo haldið iðnþing, þangað sem tveir ráðherrar mæta og fjöldi for- og framkvæmdastjóra og annarra sérfræðinga. Einhverjum þykir áhugavert að heyra hvað iðnaðarráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir mun hafa að segja en ekki síður hvað fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson hefur til málanna að leggja. Mun hann tala við þennan fjölda af framáfólki í íslensku atvinnulífi um losun hafta? Það verður spennandi að sjá...
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.