Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að ákvæði verði sett í stjórnarskrá sem segi til um það, að sjávarútvegsauðlindin sé í þjóðareigu. Þetta sagði Sigmundur Davíð, eftir fyrirspurnir Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, um málið. Þetta er um margt merkileg yfirlýsing. Ekki er víst Sjálfstæðismenn séu allir sammála þessu. Lengi vel hafa lögfræðingar deilt um skilgreiningar á þjóðareign, og hvað orðið í reynd þýði. Sigurður Líndal er í hópi þeirra sem bent hafa á, að ekki sé hægt að segja að þjóð eigi eitthvað, heldur hljóti þjóðareign að skiljast einfaldlega sem ríkiseign. Kemur þetta meðal annars fram í grein Sigurðar í Úlfljóti frá árinu 2012. Þessi sjónarmið hafa alla tíða átt mikið fylgi innan raða Sjálfstæðisflokksins. Ekki er því víst að það gangi þegjandi og hljóðalaust að breyta stjórnarskránni á þann veg, að sjávarútvegsauðlindin verði skilgreind sem þjóðareign.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.