Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Í pælingu dagsins í gær var sjónum beint að leigjendum, sem hafa orðið illa úti í öllum mögulegum skuldaúrræðum undanfarinna ára. Þá var spurt hvenær stjórnvöld ætluðu að gefa stöðu leigjenda gaum. Nú er það svo að verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilaði af sér skýrslu til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í maí í fyrra. Þar voru alls konar tillögur lagðar fram og upp úr þessum tillögum átti að vinna fjögur frumvörp um húsnæðismál. Skemmst er frá því að segja að ekkert þeirra er enn komið fram. Tvö þerra áttu að koma fram í haust, meðal annars frumvarp sem ráðherrann hefur sagt skipta miklu máli fyrir leigjendur. Það er frumvarp sem gerir ráð fyrir því að húsnæðisbætur komi í staðinn fyrir húsaleigubætur og vaxtabætur, svo að fólki verði ekki lengur mismunað í bótum eftir því hvernig það býr.
Ný og uppfærð þingmálaskrá er nú komin fram. Samkvæmt henni kemur húsnæðisbótafrumvarpið fram ekki síðar en í lok febrúar og hin frumvörpin um húsnæðismál ekki síðar en 26. mars. Það mun vera síðasti mögulegi dagurinn til að leggja fram frumvörp á þessu þingi, og á þeim degi er iðulega kominn langur listi af málum sem á eftir að klára fyrir þinglok, sem eru áætluð í lok maí. Og þangað til halda leigjendur áfram að bíða eftir sínum úrræðum.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.