Gagnrýni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á skattrannsóknarstjóra um helgina kom nokkuð á óvart. Það eru um tveir mánuðir liðnir frá því að fjármála- og efnahagsráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að skattrannsóknarstjóri hefði sjálfstæða skyldu til þess að leggja mat á gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum.
Ráðuneytið sagðist tilbúið til að tryggja nauðsynlegar fjárheimildir til að kaupa gögnin að skilyrðum uppfylltum. Bryndís Kristjándsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í kjölfarið að á lægi að klára málið, en vildi ekki nefna nein tímamörk. Síðan þá hefur lítið heyrst, þar til um helgina að Bjarni sagði málið hafa þvælst alltof lengi hjá embættinu. Vissulega skiptir tíminn miklu máli í máli sem þessu, en það má líka líta til þess að ráðuneytið sjálft tók sér lengri tíma til að komast að sinni niðurstöðu.
Pælingin er í spurningaformi í þetta skipti: skattrannsóknarstjóri heyrir undir fjármálaráðuneytið og Bryndís og Bjarni hljóta að hafa rætt málin sín á milli. Skattrannsóknarstjóri heyrir undir ráðuneytið. Ef ráðuneytið vill koma skilaboðum til embættis skattrannsóknarstjóra ætti það ekki að vera erfitt. Það er ekki mjög algengt að heyra svo harða gagnrýni ráðherra á stofnun sem undir hann heyrir. Hver er ástæðan, og var búið að koma þessum skilaboðum á framfæri við embættið áður en ráðherrann fór í viðtal, eða bárust skilaboðin fyrst til embættisins í gegnum fjölmiðla?