Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Eitt undarlegasta fyrirbærið á íslenskum samkeppnismarkaði er ríkisfyrirtækið Íslandspóstur. Samkvæmt fréttum sem fram hafa komið, þá hefur samkeppnisrekstur Íslandspósts ekki staðið undir sér árum saman og er ríkiseinokunargrunnur fyrirtækisins notaður til þess að niðurgreiða hann. Þetta er nú til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu. Í júní í fyrra hélt Íslandspóstur þjóðnýtingarstefnu sinni áfram, undir stjórn Ingimundar Sigurpálssonar, og keypti fyrirtækið Gagnageymsluna. Það er fimmta dótturfélag ríkisfyrirtækisins. Bréfritari man eftir því þegar Íslandspóstur þandi sig út á samkeppnisrekstur í prentiðnaði með kaupum á fyrirtækinu Samskiptum.
Margir þeirra sem reka lítil þjónustufyrirtæki fyrir eigin pening í mikilli samkeppni á litlum markaði með prentþjónustu, stóðu þá gapandi af undrun eftir. Hvers vegna er ríkið að gera þetta? Bréfritari hefur líka tekið eftir því að Íslandspóstur selur nammi víða í þjónustuhúsum sínum, þar sem einkaleyfisstarfsemin er til húsa. Með öðrum orðum, þá er ríkið með marga nammisölustaði í rekstri um land allt. Af hverju í ósköpunum? Það er margt skrítið á litla Íslandi...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.