Það hefur verið áhugavert að fylgjast með atburðarásinni í kringum TISA-viðræðurnar, sem Kjarninn hefur greint frá í samstarfi við Associated Whistleblowing Press og aðra fjölmiðla víða um heiminn. Í vikunni var sagt frá tillögu Tyrkja í þessum 50 ríkja viðræðum um aukið viðskiptafrelsi, en tillagan snýst um að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með markaðsvæðingu. Utanríkisráðuneytið brást við fréttunum og sagði frá því að Ísland væri mótfallið tillögunni, hefði ekki tekið þátt í viðræðum um tillöguna og myndi ekki innleiða hana.
Í kjölfarið var Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra spurður á Alþingi um þátt hans ráðuneytis í málinu, og hann svaraði því til að hann og ráðuneytið vissu ekkert um málið. Það þótti Katrínu Jakobsdóttur, sem spurði hann um málið, undrunarefni. Í ljós kom svo að þetta kom utanríkisráðuneytinu einnig í opna skjöldu því það sagðist hafa sagt velferðarráðuneytinu frá öllu saman og fulltrúi velferðarráðuneytisins tók meira að segja þátt í fundi um málið um miðjan janúar. Meira hefur ekki heyrst um þennan hluta málsins síðan.
En hvernig sem á þessu öllu saman stendur hlýtur samskiptaleysið milli og innan ráðuneyta og á milli ráðherra að vera dálítið umhugsunarefni...