Það er ekki ofsögum sagt að það uppgjör vegna hrunsins sem nú stendur yfir, og hefur staðið yfir í nokkur ár, fyrir dómstólum landsins sé fordæmalaust. Bæði eiga mörg þeirra sakamála sem höfðað hafa verið sér engin fordæmi að efni né umfangi auk þess sem það hefur aldrei gerst áður að jafn mikið af efnuðu fólki, sem hefur tök á því að greiða lögmannateymum háar upphæðir fyrir að verja sig, hafi setið á sakamannabekk.
Það er eðlilegt að sakborningar séu tilbúnir að borga eins mikið og til þarf, enda sjálft frelsið undir. En þessar aðstæður, og sú staðreynd að þungir dómar bíða þeirra sem verða sakfelldir, hafa gert það að verkum að ýmsum ráðum hefur verið beitt til að hafa áhrif á framvindu málanna sem ekki hafa sést áður í jafn miklu mæli. Í nánast hverju einasta máli eru lagðar fram margar frávísunarkröfur sem oftar en ekki snúast um tæknileg atriði frekar en raunverulegt efni málanna, lögmenn hafa sagt sig frá máli skömmu áður aðalmeðferð í því átti að hefjast með þeir orðum að réttur skjólstæðinga þeirra hafi verið þverbrotin af dómstólum og harðorðar greinar um framgöngu rannsóknaraðila, dómstóla og fjölmiðla hafa verið skrifaðar þar sem ýjað hefur verið að aðför að réttarríkinu.
Það vakti því mikla athygli þegar Hrafn Bragason, sem var hæstaréttardómari í 20 ár, skrifaði grein í Tímaritið Lögréttu,félags laganema við Háskólann í Reykjavík, sem gefið út nýverið þar sem hann gagnrýndi framgöngu ýmissa lögmanna. Þar sagði Hrafn m.a.: "Það verður að viðurkennast að í sumum þeirra mála sem varða uppgjör eftir fall íslensku bankana þykir dómurum sem lögmenn hafi gengi of langt bæði í málflutningi og í umfjöllun utan réttar um málsefnið, saksóknara og dómara. Slík umfjöllun hefur lítil eða engin áhrif á úrslit mála og mun sjálfsagt ætluð fjölmiðlum en er til þess fallin að skaða réttarkerfið í heild og þar á meðal lögmannastéttina".