Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í síðustu viku að áætlun um losun fjármagnshafta þyrfti að vera leynileg svo hún yrði ekki skemmd. Þessi leynd er svo mikil að einungis mjög fámennur hópur í kringum stjórnarherranna og innan Seðlabankans hefur upplýsingar um hver áætlunin er. Meira að segja þjóðkjörnir þingmenn annarra flokka, sem sitja í samráðshópi um afnám hafta, fá ekkert að vita. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur sá hópur ekki fundað einu sinni á þessu ári, á sama tíma og digurbarklegar yfirlýsingar eru gefnar í fjölmiðlum um skref í átt að afnámi hafta.
Í þessu samhengi er vert að minnast á að stærsta og mikilvægasta ákvörðun sem tekin hefur verið varðandi þrotabú föllnu bankanna frá því að neyðarlögin voru sett var sú að afnema svokallað sólarlagsákvæði úr lögum um gjaldeyrismál. Það var gert þann 9. mars 2013. Með því voru fjármagnshöftin gerð ótímabundin í stað þess að þau ættu að renna út í lok árs 2013. Um þessa niðurstöðu var þverpólitísk sátt og málið var afgreitt á innan við klukkutíma í þinginu.
Áður, þann 20. desember 2012, hafði þverpólitísk nefnd fulltrúa þingflokka um afnám gjaldeyrishafta einróma lagt þessa breytingu til. Í kjölfar breytingarnar, þann 5. apríl 2013, sendi sama nefnd bréf til fjármála- og efnahagsráðherra og formanna stjórnmálaflokkanna þar sem hún sagði m.a. að höft ætti ekki að losa nema að til staðar væri heildarlausn sem ógni ekki fjármálastöðugleika, að alls ótímabært væri að selja hluti í nýju bönkunum, að leita þyrfti liðsinnis erlendra sérfræðinga til að tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir afnámsferlið og að tryggja þyrfti „samráð milli þeirra aðila sem hafa þessi mál á sinni könnu“.
Í þessari nefnd sátu sex manns og allir voru sammála. Á meðal þeirra eru jafn ólíkir aðilar og Huginn Freyr Þorsteinsson, fyrrum aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri Leiðréttingarinnar, og Sigurður Hannesson, sem nú situr í framkvæmdanefnd um afnám hafta og er einn helsti efnahagsráðgjafi forsætisráðherra.
Pæling dagsins er þessi: Hvernig getur þverpólitískt samstaða, sem sýnt hefur verið að hægt sé að ná, þar sem stjórn og stjórnarandstaða tala einum rómi í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar skemmt fyrir?