Ásakanir um valdarán ganga nú á víxl milli stjórn og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan vill meina að sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að senda Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra til Slóvakíu á fimmtudag til að slíta viðræðum við Evrópusambandið formlega, án þess að bera það undir þing eða utanríkismálanefnd, sé valdarán. Auk þess hafi báðir stjórnarflokkarnir, og forystumenn þeirra, lofað kjósendum að framhald Evrópusambandsumsóknarinnar myndi verða sett í þjóðaratkvæði í kosningabaráttunni 2013. Þessi loforð hafi gert það að verkum að Evrópusambandsmálin voru sett til hliðar í kosningunum. Með því að ganga á bak orða sinna hafi stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, verið kosnir til valda á fölskum forsendum. Það sé líka valdarán.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vill á móti meina að stjórnarandstaðan sé að reyna að fremja valdarán með því að senda Evrópusambandinu bréf þar sem hún tiltekur að ríkisstjórnin geti ekki slitið aðildarviðræðum við Ísland án aðkomu þingsins. Hann segir bréfið raunar vera „brandara“ og hið meinta valdarán því hið minnsta tilraun til að vera fyndið.
Án þess að gera lítið úr þeim alvarlegu deilum sem eru uppi í íslenskum stjórnmálum og íslensku samfélagi í heild þá verður að gera athugasemd við notkunina á orðinu valdarán. Slík eiga sér vanalega stað með þeim hætti að litlir hópar taka öll völd í ríkjum, oftast með hjálp hers eða annarra vopnaðra hópa. Mælt er með því að íslenskir stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar finni sér annað orð til að lýsa vandlætingu sinni á hegðun andstæðinga sinna.