Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Dómur hefur verið upp kveðinn í Al-Thani málinu svokallaða. Einn hinna ákærðu, Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir aðild sína að Al-Thani fléttunni, sem er eitt ófyrirleitnasta efnahagsbrotamál í Íslandssögunni.
Vegna sakfellingar Sigurðar, sem nú hamast við að grafa undan trausti almennings á réttarkerfinu ásamt öðrum dæmdum mönnum í Al-Thani málinu, skoðar orðunefnd hvort svipta eigi Sigurð riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nældi orðuna á Sigurð árið 2007 „fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi,“ eins og það var orðað í Stjórnartíðindum.
Eins og fram hefur komið var Sigurður Einarsson einn helsti samstarfsmaður Ólafs Ragnars á árunum fyrir bankahrunið. Bæði í bók sem skrifuð var um forsetann árið 2008 og í rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið er fjallað um samband þeirra og hvernig forsetinn greiddi götu Kaupþings ítrekað á árunum fyrir bankahrun, meðal annars með því að bjóða erlendum bankamönnum til fundar á Bessastöðum til að sannfæra þá um ágæti íslenska bankans. Kjarninn tók saman nokkur brot úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um samskipti forseta Íslands við Kaupþing og þá sérstaklega Sigurð Einarsson.
Pæling Kjarnans er þessi: Er ekki nauðsynlegt að forsetinn geri nú hreint fyrir sínum dyrum varðandi greiðvikni hans í garð Sigurðar Einarssonar og þátt hans í útrás Kaupþings, í ljósi áðurnefnds Hæstaréttardóms í Al-Thani málinu? Eða skiptir það íslensku þjóðina engu máli hvers konar vini forseti vor velur sér, og starfar fyrir í nafni þjóðarinnar?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.