Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Víglundur Þorsteinsson setti íslenskt samfélag á hliðina á dögunum þegar hann reið inn á völlinn vopnaður „nýjum“ gögnum sem hann sagði sanna að stjórnmálamenn, embættismenn ráðuneyta og Fjármálaeftirlitið hefðu framið margvísleg og stórfelld lögbrot við endurreisn föllnu bankanna í kjölfar efnahagshrunsins. Víglundur fullyrti meðal annars að íslensk stjórnvöld hefðu snuprað almenning í landinu um hátt í þrjú hundruð milljarða króna með því að afhenda þrotabúum föllnu bankanna eignir þeirra á hrakvirði.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var spurður út í ásakanir Víglundar í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni nokkrum klukkustundum eftir að Víglundur hafði sent frá sér gögnin, sama morgun og umboðsmaður Alþingis kynnti niðurstöður frumkvæðisathugunar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, í tengslum við rannsókn lögreglu á lekamálinu svokallaða, í beinni sjónvarpsútsendingu af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Sigmundur tók undir ásakanir Víglundar, sagði þær grafalvarlegar og að mikilvægt væri að málið yrði rannsakað. Ef til vill voru viðbrögð forsætisráðherra eilítið misráðin, því með því að taka undir málstað Víglundar gaf hann ásökunum á hendur fjölda embættismanna og starfsmanna ráðuneyta og ríkisstofnanna, um óheilindi í starfi og beinlínis lögbrot, byr undir báða vængi.
Í nýrri skýrslu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann kynnti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag, er fullyrðingum Víglundar vísað á bug. Í raun og veru er niðurstaða skýrslunnar að ekki standi steinn yfir steini í málflutningi Víglundar. Pæling Kjarnans er því þessi: Þarf ekki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að útskýra málflutning sinn úr Bítinu morguninn eftir að Víglundur sendi gögnin? Eiga stjórnmála- og embættismennirnir sem ásakaðir voru um lögbrot ekki rétt á því? Þar Sigmundur Davíð kannski að biðja fjölda fólks afsökunar?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.