Um eitt ár er í að Íslendingar kjósa sér nýjan forseta. Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur þá verið forseti í 20 ár, þykir ekki líklegur til að bjóða sig fram aftur, en Ólafur Ragnar verður 72 ára á þessu ári. Búið er að stofna facebook-síðu þar sem skorað er á hann að halda áfram (1.329 hafa líkað við hana) og aðra slíka sem hvetur hann til að gera það ekki (980 hafa líkað við hana). Hvort Ólafur Ragnar bjóði sig fram enn og aftur mun þó endanlega koma í ljós annað hvort við setningu þings í haust eða í næsta áramótaávarpi forsetans.
Jón Gnarr sló það loks alveg út af borðinu í gær að hann myndi bjóða sig fram til forseta. Hann nennir ekki íslensku stjórnmálamenningunni. Gríðarlega mikill stuðningur hefur mælst við mögulegt framboð Jóns. Ljóst er að ákvörðun hans opnar dauðafæri fyrir einhvern annan frambjóðanda sem gæti höfðað sterkt til þess stóra hluta þjóðarinnar sem vill allt öðruvísi forseta en Ólaf Ragnar. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sem er sögð horfa hýru auga til embættisins, er kannski ekki alveg sá frambjóðandi.
Því verður áhugavert að sjá hver það verður sem stígur inn á sviðið. Ár er stuttur tími og ljóst að viðkomandi þarf að fara að undirbúa framboðið mjög bráðlega ef hann ætlar fram.