Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Umræða um skertan hlut kvenna í íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttageiranum var ansi áberandi á Edduverðlaunahátíðinni í gær. Alltof fáar konur eru að búa til kvikmyndir og sjónvarpsþætti á Íslandi í dag, og of lítið framboð er af sterkum burðarhlutverkum fyrir leikkonur.
Baltasar Kormákur sagði upp á sviði á Eddunni í gær: „Það eru tvö vandamál í íslenska kvikmyndageiranum í dag. Konur gera allt of lítið og ég geri allt of mikið.“ Mjög er hægt að taka undir fyrri fullyrðinguna, og sumir myndu jafnvel taka undir þá seinni líka. Þá tileinkaði Baldvin Z., hinn sigursæli leikstjóri Vonarstrætis, verðlaununum sem myndin fékk sem kvikmynd ársins, látinni móður sinni til „að taka þátt í umræðunni.“
Óþarfi er að fjölyrða um mikilvægi þess að kvikmyndir og sjónvarpsþættir endurspegli fjölbreytileika mannlífsins og íslensks samfélags. Konur þurfa að hafa jafn greiðan aðgang að sjóðum til kvikmyndagerðar og aðrir kvikmyndagerðarmenn, og bitastæð burðarhlutverk fyrir konur verða að vera í boði svo leikkonur geti orðið fyrirmyndir fyrir tilvonandi leikkonur framtíðarinnar.
Hér er pæling: Útrýmum kynjamisrétti hvar sem það þrífst.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.