„Nú er liðið eitt sumar síðan upplýst var að menntamálaráðherra bað um og fékk persónulegan fjárstuðning frá aðila sem hann síðan veitti pólitíska fyrirgreiðslu vegna viðskiptahagsmuna í Kína. Pólitísk spilling verður ekki augljósari en þetta.“
Þetta skrifar Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Í greininni kallar Páll eftir afsögn Illuga úr starfi mennta- og menningarmálaráðherra, en síðastliðið vor var upplýst að Illugi seldi íbúðina sína á Ránargötu til stjórnarformanns Orku Energy vegna fjárhagserfiðleika og leigir hana nú út. Málið kom upp í fjölmiðlum í kjölfar þátttöku Orku Energy í ferð Illuga til Kína, en Illugi vann ráðgjafastörf fyrir fyrirtækið þegar hann var utan þings.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Páll kallar eftir afsögn Illuga og sakar hann um pólitíska spillingu. Það gerði hann einnig í maí síðastliðnum.
Páll hætti sem útvarpsstjóri nokkrum mánuðum eftir að Illugi varð mennta- og menningarmálaráðherra, en ráðuneyti hans fer með málefni RÚV. Ástæðan var sú að ákveðið hafði verið að auglýsa stöðu útvarpsstjóra lausa til umsóknar.
Segir málið slæmt fyrir flokkinn
Í greininni, sem ber yfirskriftina „Er ráðherrann ekki á förum?“, segir Páll að sjálf skilgreiningin sem OECD og fleiri alþjóðlegar stofnanir noti á fyrirbærinu „spillingu“ feli í sér verklýsingu á því sem ráðherran gerði. „Misnotkun stjórnvalds eða pólitískra ráðamanna á valdi sínu og áhrifum fyrir ólögmætan, venjulega leynilegan, persónulegan ávinning,“ er sú lýsing sem Páll vísar til. Hann telur að ef Illugi segir ekki sjálfur af sér þá hljóti formaður Sjálfstæðisflokksins að vísa honum veginn. Aðstæður í dag séu ekki gæfulegar flokknum.
„Við þetta bætist síðan að ráðherrann sagði opinberlega og vísvitandi ósatt þegar hann hélt því fram í viðtali við Fréttablaðið 9. apríl sl. að tenging hans við þennan aðila væri frá þeim tíma þegar hann var utan þings og að hann hefði engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta gagnvart honum lengur. Hvorttveggja var og er ósatt,“ segir í greininni. Auk þess hafi fjölmiðillinn Stundin þráspurt ráðherran um málið en engin svör fengið.
„Þögn ráðherrans er skiljanleg. Honum væri þó hollt að minnast þeirrar meginreglu að ráðherrar á Vesturlöndum geta yfirleitt ekki þagað neitt í hel nema sjálfa sig. Og þótt ráðherranum hafi tekist að koma sér undan því að svara fjölmiðlum allan þennan tíma, svo undarlegt sem það nú er og má heita mikil lítilþægni af þeirra hálfu, þá kemst hann varla undan því að svara fyrir málið á Alþingi eða Landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem stendur fyrir dyrum. Nema þá að þessar stofnanir leggist í samræmda meðvirkni með ráðherranum og spyrji einskis.“
„Hjákátleg þögn“
Páll telur „hjákátlega þögn“ ríkja um málið hjá þeim sem tíðast skrifa um samfélagsmál í dagblöð og netmiðla. „Ekki hefur heyrst hósti né stuna frá þessum annars sískrifandi 5-6 einstaklingum. Þó hefur pólitísk spilling á Íslandi sjaldan birst jafn hrein og kristaltær og í ofangreindu tilviki. Sumir þessara skriffinna görguðu sig t.d. hása mánuðum saman út af máli Hönnu Birnu. Hún gat þó að ákveðnu marki afsakað sig með mistökum, dómgreindarleysi, reynsluleysi og misvitrum aðstoðarmönnum og ráðgjöfum. Engu slíku er til að dreifa í máli menntamálaráðherra. Þar stendur spillingin ein og hrein og hefur ekkert skjól af mistökum eða dómgreindarleysi; þetta var úthugsaður og einbeittur ásetningur ráðherra um pólitískan greiða fyrir persónulegan. Samt heyrist ekki múkk í hinni málglöðu intelligensíu. Það er svo sem í góðu samræmi við þau margtuggðu vísdómsorð Laxness að Íslendingar „… leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“ Páll spyr hvort þetta sé vegna kunningaskapar eða vináttu við „hinn geðþekka og kúltíveraða ráðherra, sem sækir sömu konserta og kaffihús - og spilar auk þess fallega á píanó?“.