Páll Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, lést á Landspítalanum við Hringbraut 22. apríl sl. á 70. aldursári. Tilkynning um andlát hans birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Páll fæddist á Akureyri 4. júní 1945. Foreldrar hans voru Þorbjörg Pálsdóttir kennari og Skúli Magnússon kennari.
Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1965, BA-prófi frá Université Catholique de Louvain í Belgíu 1967 og doktorspróf frá sama skóla 1973.
Páll byggði upp kennslu í heimspeki við HÍ ásamt þeim Þorsteini Gylfasyni og Mikael Karlssyni. Hann var lektor í heimspeki við HÍ 1971-75, prófessor í heimspeki frá 1975 og rektor Háskóla Íslands 1997-2005. Páll var þrívegis forseti heimspekideildar HÍ, og afkastamikill fræðimaður og samfélagsrýnandi í verkum sínum, alla tíð.
Hann var formaður Félags háskólakennara 1983-84. Páll var einn af stofnendum Norrænu heimspekistofnunarinnar, formaður stjórnar Menningarsjóðs útvarpsstöðva 1986-90 og í vísindasiðanefnd Læknafélags Íslands 1986-95. Páll var formaður stjórnar Siðfræðistofnunar frá stofnun hennar 1989 og fram til 1997. Á árunum 1997 til 2001 var Páll formaður stjórnar Reykjavík menningarborg Evrópu árið 2000.
Páll sat í háskólaráði Háskólans í Lúxemborg frá 2004 til 2009. Hann sinnti umfangsmiklum nefndarstörfum vegna úttekta á háskólum á vegum Samtaka evrópskra háskóla (EUA) frá 2005 og hefur verið formaður alþjóðlegrar nefndar um ytra mat á Háskólanum í Lúxemborg frá 2007.
Á meðal helstu rita Páls eru Du cercle et du sujet, doktorsritgerð (1973); Hugsun og veruleiki (1975); Samræður um heimspeki, ásamt Brynjólfi Bjarnasyni og Halldóri Guðjónssyni (1987); Pælingar (1987); Pælingar II (1989); Siðfræði (1990); Sjö siðfræðilestrar (1991); Menning og sjálfstæði (1994); Í skjóli heimspekinnar (1995); Umhverfing (1998) og Saga and Philosophy (1999). Síðastliðin tvö ár birti hann sex bækur um háskóla, stjórnmál og náttúru: Ríkið og rökvísi stjórnmála (2013); Náttúrupælingar (2014); Hugsunin stjórnar heiminum (2014); Háskólapælingar (2014); Veganesti (2015) og A Critique of Universities (2015).
Auk þess er um þessar mundir verið að ganga frá tveimur bókum Páls til prentunar, Pælingar III og Merking og tilgangur.
Páll var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1999.
Páll kvæntist Auði Þ. Birgisdóttur (f. 1945) hinn 14. ágúst 1965 og eignuðust þau þrjú börn.
Ritstjórn Kjarnan sendir stórfjölskyldu Páls samúðarkveðjur.