Pálmi Haraldsson, Jóhannes Kristinsson og félag þeirra Matthews Holding S.A., sem er skráð í Lúxemborg, voru í gær sýknaðir í Hæstarétti að kröfu þrotabús Fons um endurgreiðslu á 4.180 milljónum króna með dráttarvöxtum frá 14. september 2007. Þrotabúið taldi annmarka hafa verið á framkvæmd arðgreiðslu upp á þessa upphæð út úr Fons á árinu 2007, sem byggði á upplýsingum úr ársreikningi um 28,9 milljarða króna hagnaði félagsins árið áður, þar sem fjárhagsstaða Fons hefði ekki boðið upp á slíka arðgreiðslu. Arðurinn var greiddur með því að Fons dró á lánalínu sína hjá Landsbankanum. Því var tekið lán fyrir henni og við það jukust skuldir Fons um þessa upphæð.
Hæstiréttur hafnaði því og sagði að ekki verði talið „að slíkir annmarkar hafi verið á ársreikningnum 2006, sem samþykktur var á aðalfundinum 21. ágúst 2007, að hann hafi ekki getað verið viðhlítandi grundvöllur undir arðsúthlutun úr félaginu. Að framangreindu virtu verður heldur ekki talið að aðaláfrýjandi hafi leitt í ljós að svo miklum arði hafi verið úthlutað úr félaginu að andstætt hafi verið góðum rekstrarvenjum með tilliti til fjárhagsstöðu samstæðunnar“. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að sömu niðurstöðu í fyrrasumar.
Fons varð gjaldþrota snemma árs 2009. Kröfur í búið námu um 40 milljörðum króna, þótt þær hafi ekki allar verið samþykktar. Skiptum á búinu er ekki lokið og því ekki ljóst hvað fæst upp í lýstar kröfur í búið.
Máttu greiða arðinn
Í dómi Hæstaréttar segir, um ákvörðunina um veitingu arðgreiðsluna, að „Samkvæmt fundargerð frá aðalfundinum 21. ágúst 2007 sátu fundinn stjórn félagsins auk endurskoðanda þess og mun gagnáfrýjandinn Pálmi hafa farið með atkvæði fyrir alla hluti í félaginu. Á fundinum var fært til bókar að ákveðið hefði verið að greiða arð að fjárhæð 4.400.000.000 krónur. Ákvörðunin var háð því skilyrði að Landsbanki Íslands hf. samþykkti ráðstöfunina, en hann mun hafa verið helsti lánardrottinn félagsins og viðskiptabanki þess. Í kjölfarið féllst bankinn á arðgreiðsluna og fjármagnaði hana með láni til Fons hf. Var arðgreiðslan innt af hendi með fimm millifærslum 14. september 2007 frá bankanum inn á reikning í Kaupthing Bank Luxembourg S.A.“
Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að þótt ekki hafi komið fram með berum orðum í fundargerð fundarins þar sem arðgreiðslan var samþykkt „að tillaga þess efnis hafi verið gerð af stjórn félagsins eða með samþykki hennar verður að leggja það til grundvallar, enda sátu aðeins stjórnarmenn fundinn að frátöldum endurskoðanda félagsins. Fór ákvörðunin því ekki í bága við 1. mgr. 101. gr. laga nr. 2/1995. Þá gat engu breytt um lögmæti ákvörðunar um arðsúthlutun þótt tillaga þar að lútandi kæmi ekki fram í skýrslu stjórnar með ársreikningi 2006, sem lagður var fyrir fundinn, eða að hún hafi ekki legið frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir hann. Helgast það af því að þær formreglur eru settar til að vernda hagsmuni minnihluta hluthafa en fyrir liggur að allt hlutafé í félaginu var í eigu gagnáfrýjandans Matthews Holding S.A. Var því engum til að dreifa sem þessir annmarkar gátu bitnað á.“