Auðkýfingurinn Paul Allen hefur ákveðið að styðja við rannsóknir á Alzheimer sjúkdómnum með peningaframlagi. The Paul G. Allen Family Foundation, sjóður fjölskyldu hans, ákvað fyrir skemmstu styrkja rannsóknir fimm rannsóknarteyma um sjö milljónir Bandaríkjadala.
Paul Allen hefur í gegnum tíðina styrkt veglega við bakið á þeim sem eru að rannsaka Alzheimer sjúkdóminn og hefur oft rætt opinberlega um erfiða baráttu móður hans við sjúkdóminn.
Eignir Allen eru metnar á 17,4 milljarða Bandaríkjadala um þessar mundir, en stór hluti þeirra er bundinn í verðbréfum. Allen stofnaði Microsoft ásamt Bill Gates, ríkasta manni heims, árið 1975 en hætti hjá fyrirtækinu átta árum síðar og hóf sjálfur að stunda fjárfestingar.
Allen er 62 ára og býr í Seattle, þar sem hann ólst upp.