Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði árið 2008 og pistlahöfundur New York Times, segir í stuttum pistli á vef bandaríska blaðsins að endurreisn Íslands eftir efnahagshrun og hljómsveitin Of Monsters and Men séu í reynd óskyldir hlutir, en hann hafi samt einkar gaman af hljómsveitinni. Vísar hann sérstaklega til lagsins Crystals sem nú hljómar ótt og títt á öldum ljósvakans um allan heim.
Í pistlinum vísar hann á tvö myndbönd af hljómsveitinni spila lagið, fyrst hefðbundna útgáfu sveitarinnar og síðan órafmagnaða útgáfu.
Krugman segist einkar ánægður með nýja efnið með hljómsveitinni.
Hin alíslenska Of Monsters and Men gaf út nýja plötu sína Beneath the Skin 9. júní síðastliðinn, og eru vinsældir sveitarinnar að vaxa hratt um allan heim.
https://www.youtube.com/watch?t=16&v=TReXq34mQvY