Í síðasta þætti af Ferð til fjár spurðum við vegfarendur í Kringlunni hvað peningar eru og hvernig manneskja peningar væru, að því gefnu peningar væru lifandi manneskja! Flestir þurftu umhugsunarfrest þegar spurt var hvað peningar séu, enda fyrirbærið peningar nokkuð sem einfaldlega er hluti af daglegu lífi. Öll vitum við hvernig þeir virka, án þess að hafa endilega velt því upp hvað þeir eru.
Eyjólfi Ásberg Halldórssyni fannst spurningin þó ekkert flókin: „Það eru völd, það er bara hamingja og lífið,“ sagði hann. Spurður hvernig hann manneskja hann héldi að peningar væru sagði Eyjólfur: „Hún væri besti vinur minn.“
Ragnar Þorvarðarson í þáttunum Ferð til fjár.
Ragnar Þorvarðarson var nærri réttara svari þegar hann útskýrði hvernig peningar gegna hlutverki við kaup á vöru- og þjónustu. „Eins og í gamla daga, þegar þú skiptir á fisknum sem þú veiddir fyrir kartöflurnar sem nágranni þinn ræktaði, þá notum við peninga til þess að vera ekki að bera allt draslið sem við eigum með okkur á milli staða.“ Nærri lagi!
Grimma manneskjan Peningar
Spurður hvernig manneskja peningar væru, sagði Vignir Daðason að hún væri gædd öllum þeim persónueiginleikum sem við öll höfum. „Bæði full af brestum og full af kærleik.“
Anna Marsibil Clausen sagði að sú manneskja væri grimm og Ólöf Birna Sveindóttir og Hrafnhildur Edda Magnúsdóttir sögðu að sem manneskja yrðu peningar mjög eftirsótt manneskja sem allir vilja vera.
Þar höfum við það! Við viljum heyra hvernig manneskja þú telur að peningar væru. Finndu okkur á Facebook og taktu þátt í umræðunni.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.