Grísk stjórnvöld fengu í dag 7,2 milljarða evra lán frá Evrópusambandinu, sem samþykkt var að veita síðastliðinn föstudag. Nær allri upphæðinni var samstundið varið í að endurgreiða lán sem fallin voru á gjalddaga, meðal annars ríflega tveggja milljarða greiðslu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Framkvæmdastjóri upplýsingamála hjá AGS staðfesti í dag að greiðsla hafi borist frá Grikklandi. Skuldir Grikklands gagnvart AGS eru því ekki lengur skilgreindar sem gjaldfallnar, eins og þær hafa verið frá 30. júní. Þann dag greiddu grísk stjórnvöld ekki um 1,6 milljarða af láni frá AGS og landið varð fyrst þróaðra ríkja til að standa ekki við skuldbindingar sínar gagnvart AGS.
Á vef The Guardian er greint frá því að Grikkir hafi auk þess endurgreitt Seðlabanka Evrópu um 3,5 milljarða evra lán í dag, sem einnig var fallið á gjalddaga. Til viðbótar greiddu Grikkir seðlabankanum um 700 milljónir evra í dráttarvexti. Endurgreiðslan skiptir miklu máli fyrir áframhaldandi veru Grikklands í evrusamstarfinu.
Grískir bankar opnuðu í morgun eftir að hafa verið lokaðir í þrjár vikur. Biðraðir mynduðust við útibú bankanna. Fjármagnshöft eru enn við lýði í landinu og er hverjum einstaklingi heimilt að taka út aðeins 420 evrur á viku, jafnvirði um 62 þúsund króna. Gríska kauphöllin er áfram lokuð.
Grikkland og kröfuhafar komust að samkomulagi snemma í síðustu viku um miklar aðhaldsaðgerðir í Grikklandi gegn frekari lánafyrirgreiðslum upp á um 86 milljarða evra. Grikkir skuldbinda sig meðal annars til þess að gera veigamiklar breytingar á virðisaukaskattkerfinu, öðrum skattstofnum og lífeyriskerfinu auk meiriháttar einkavæðingar. Eins og margoft hefur komið fram þá hefur ferlið verið erfitt, evrusamstarf Grikkja hefur hangið á bláþræði og allsherjar greiðslufall ríkisins verið yfirvofandi. Vonir standa til að nýgert samkomulag dugi til að koma gríska efnahagskerfinu á réttan kjöl en efasemdarmenn eru margir, meðal annars sérfræðingar AGS og stjórnmálaforystan í Grikklandi.