Persónuupplýsingar um helstu þjóðarleiðtoga heimsins voru fyrir mistök birt af útlendingayfirvöldum í Ástralíu í tengslum við G20 fund sem var haldinn í Brisbane í Ástralíu í nóvember í fyrra. Áströlsk yfirvöld greindu þjóðarleiðtogunum ekki frá þessu. Guardian segir frá málinu í morgun.
Vegabréfsnúmer, vegabréfsáritanir og ýmsar aðrar persónugreinanlegar upplýsingar um alla leiðtogana voru sendar fyrir mistök til skipuleggjenda Asíubikarsins í knattspyrnu. Það var starfsmaður í útlendingaeftirliti sem það gerði.
Barack Obama Bandaríkjaforseti, Vladimír Pútín Rússlandsforseti, Angela Merkel Þýskalandskanslari og David Camerson, forsætisráðherra Bretlands, voru á meðal þeirra sem lentu í þessu ásamt Xi Jinping, forseta Kína, Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Joko Widodo, forseta Indónesíu, svo dæmi séu tekin.
Guardian hefur undir höndum tölvupóst sem sendur var til að láta vita af upplýsingalekanum. Þar kemur fram að um mannleg mistök hafi verið að ræða, ekki hafi verið gætt að því að Microsoft Outlook póstforritið fylli sjálfkrafa út póstföng þegar byrjað er að skrifa hvert tölvupóstur eigi að fara. Þess vegna hafi tölvupósturinn farið annað en hann átti að fara. Þá kemur fram að viðtakendur póstsins hjá Asíubikarnum hafi eytt honum og ekki áframsent neitt, og ekki sé talið að upplýsingarnar hafi komist í hendur annarra.
Málið hefur vakið mikla athygli í Ástralíu, ekki síst vegna þess að það voru útlendingayfirvöld í Ástralíu sem báru ábyrgð á stærsta upplýsingaleka frá stjórnvaldi í sögu landsins. Það var í febrúar í fyrra, þegar persónuupplýsingar um tæplega tíu þúsund manns voru settar á vefsíðu útlendingaeftirlitsins. Fólkið var allt í haldi yfirvalda, margir voru hælisleitendur.
Stjórnarandstaðan í Ástralíu hefur krafið Tony Abbot forsætisráðherra svara um það hvers vegna þjóðarleiðtogarnir voru ekki látnir vita af málinu. Þá þykir málið vandræðalegt fyrir stjórnvöld þar sem í síðustu viku voru umdeild lög um gagnageymslu samþykkt, en lögin skylda símafyrirtæki til að geyma ákveðnar síma- og netupplýsingar í tvö ár. „Það var aðeins í síðustu viku sem ríkisstjórnin kallaði eftir því að almenningur í Ástralíu treysti þeim fyrir netgögnum, og nú komumst við að því að hún greindi frá upplýsingum um leiðtoga heimsins,“ sagði þingmaðurinn Sarah Hanson-Young.