Ákvæði frumvarps til laga um vernd uppljóstrara, þar sem kveðið er á um undanþágu frá þagnarskyldu starfsstétta sem fjalla um viðkvæmar persónuupplýsingar, samrýmist hvorki sjónarmiðum um meðalhóf né ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, að mati Persónuverndar. Stofnunin leggur til að sett verði á fót starfshópur sem hefur það hlutverk að kanna nánar það lagaumhverfi sem nú er til staðar og hvort raunveruleg þörf sé á lagaákvæðum sem þessum.
Níu þingmenn Bjartrar framtíðar og Pírata lögðu í mars síðastliðnum fram frumvarp um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara. Samkvæmt frumvarpinu eru markmið þess að stuðla að miðlun upplýsinga um misgerð eða koma í veg fyrir misgerð, tryggja vernd uppljóstrara og tengdra aðila, og stuðla að aðgengi að upplýsingum sem varða almannahagsmuni og eiga erindi til almennings. Flutningsmaður er Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. Meðal annars var óskað eftir áliti Persónuverndar.
Helsta athugasemd stofnunarinnar varðar 6. grein frumvarpsins sem fjallar um frávik frá þagnarskyldu. „Persónuvernd gerir alvarlegar athugasemdir við framangreint ákvæði þar sem kveðið er á um refsileysi gagnvart trúnaðar- og þagnarskylduákvæðum laga. Í ákvæðinu er lagt til að falla skuli frá saksókn ef miðlun upplýsinga skv. II. kafla laganna brýtur gegn trúnaðar- og starfsskyldum laga nema því aðeins að ríkir almannahagsmunir krefjist málshöfðunar. Persónuvernd telur að ákvæðið þurfi að afmarka nánar en eins og það er nú verður það ekki skilið á annan hátt en að t.d. læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn megi ávallt rjúfa skyldu sína til þagmælsku um hagi sjúklings, sé slíkt trúnaðarrof þáttur í uppljóstrun samkvæmt ákvæðum frumvarpins,“ segir í áliti Persónuverndar. Það er mat stofnunarinnar að þetta brjóti gegn friðhelgi einkalífs sem nýtur verndar 71. greinar stjórnarskrárinnar og 8. greinar mannréttindasáttmála Evrópu.