Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að skráning persónuupplýsinga um mótmælendur í Búsáhaldarbyltingunni í lögreglukerfið LÖKE hafi verið heimil. Miðlun þeirra upplýsinga, í skýrslu lögreglu þar sem hægt var að lesa nöfn þeirra sem fjallað var um, samrýmdist hins vegar ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Persónuvernd kemst að því að öryggi vinnslu persónuupplýsinga í skýrslunni hafi ekki verið nægilega tryggt. Því er það niðurstaða Persónuverndar að: „sú að skráning persónuupplýsinga um kvartendur í upplýsingakerfi lögreglu, LÖKE, hafi verið heimil. Þá er skráning persónuupplýsinga í þágu samantekarinnar talin heimil hvað varðar þá kvartendur sem störfuðu sem lögreglumenn fyrir lögregluna en óheimil hvað varðar þá kvartendur sem voru viðstaddir mótmælin. Loks var miðlun persónuupplýsinga um kvartendur, sem bar að afmá samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, ekki talin samrýmast lögum nr. 77/2000."
Niðurstöðu Persónuverndar í heild sinni má lesa hér.
Hægt var að sjá afmáðan texta
Skýrslan sem Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn, skrifaði um skipulag lögreglu við þau mótmæli sem fram fóru hérlendis á árunum 2008 til 2011 var mikið til umfjöllunar í fyrrahaust eftir að í ljós kom að hægt var að sjá afmáðan texta undir sterku ljósi eða með því að afrita hann í rafrænni útgáfu skýrslunnar.
Lögreglunni var gert að afhenda eintök af skýrslunni í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um að Eva Hauksdóttir, sem er einn nafngreindra mótmælenda í skýrslunni, ætti rétt á að sjá hana. Í kjölfarið voru eintök send á suma fjölmiðla. Þau eintök voru skömmu síðar innkölluð eftir að í ljós kom að hægt var að sjá afmáða textann.
Persónuvernd óskaði formlega eftir skýringum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í lok október 2014 vegna upplýsingasöfnunar hennar um einstaklinga sem tóku þátt í mótmælum í byrjun árs 2009. Nú er komin niðurstaða í það mál.
Kjarninn hefur skýrsluna umdeildu undir höndum. Hana má lesa hér.